Erlent

Ráðherralistinn tilbúinn

Ibrahim al-Jaafari verðandi forsætisráðherra Íraks hefur loksins náð að setja saman ráðherralista sinn. Þar með lýkur tæplegra þriggja mánaða langri stjórnarkreppu í landinu sem verkaði sem olía á eld uppreisnarmanna. Þótt úrslit írösku kosninganna í janúar hafi verið allskýr þá hefur gengið erfiðlega að mynda ríkisstjórn í landinu. Í gær tókst hins vegar að höggva á hnútinn en þá gekk Ibrahim al-Jaafari, leiðtogi kosningabandalags sjía, á fund Jalal Talabani forseta og kynnti honum ráðherralista sinn. Fallist Talabani á tillögurnar getur íraska stjórnlagaþingið greitt atkvæði um stjórnina á næstu dögum. Sjálfur listinn hefur ekki verið gerður opinber en að líkindum fær sjíabandalagið flest ráðuneytanna 32 í sinn hlut. Kúrdar, súnníar og kristnir skipta afgangnum á milli sín. Enda þótt flokkur Iyad Allawi, fráfarandi forsætisráðherra, hafi fengið 40 þingsæti í kosningunum fær hann engin ráðherraembætti því al-Jaafari taldi mikilvægara að gera súnníum hærra undir höfði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×