Erlent

73 látnir eftir lestarslys í Japan

Björgunarsveitarmenn í Japan fundu þrjá á lífi í nótt í braki farþegalestar sem fór út af sporinu í námunda við íbúðahverfi í Osaka í gær. Talið er að orsök slyssins hafi verið sú að lestinni var ekið allt of greitt. 73 létu lífið í slysinu og um 440 manns eru slasaðir, margir lífshættulega. Afar erfitt er fyrir björgunarsveitarmenn að athafna sig á slysstað. Lestin þeyttist af teinunum með slíkum krafti að hún náði að bókstaflega að fletja út og draga með sér þær bifreiðar sem undir henni lentu. Á sama tíma reyndu eftilitsmenn á vegum samgönguyfirvalda á svæðinu að finna út hvað olli slysinu. Lögreglumenn skoðuðu gögn í höfuðstöðvum fyrirtækisins sem átti lestina í nótt en böndin berast að lestarstjóranum sem talið er að hafi ekið lestinni of hratt. Hún var tveimur mínútum á eftir áætlun og var ekið á 100 kílómetra hraða á klukkustund þegar hún fór út af sporinu þar sem leyfilegur hámarkshraði var 70 kílómetrar. Lestarstjórans er ákaft leitað en ekki er vitað hvort hann er lífs eða liðinn. Aðeins sólarhring eftir þetta mannskæðasta lestarslys í Japan í fjóra áratugi fór önnur lest út af sporinu norðaustur af höfuðborginni Tókýó. Hún skall á byggingu en engin slys urðu á fólki. Mikil umræða fer nú fram um öryggi lestarsamgangna í Japan og kallað hefur verið eftir ítarlegri úttekt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×