Erlent

Hermenn hafi ekki gert neitt rangt

Rannsóknarmenn á vegum Bandaríkjahers hafa komist að því að bandarískir hermenn sem skutu ítalskan leyniþjónustumann sem var nýbúinn að bjarga ítölskum blaðamanni úr haldi mannræningja í Írak hafi ekki gert neitt rangt heldur aðeins sinnt störfum sínum. Þetta kemur fram í skýrslu sem gerð hefur verið um málið og greint er frá á fréttavef BBC. Ítalski leyniþjónustumaðurinn Nicola Calipari var einn þeirra sem sóttu blaðakonuna Guiliönu Sgrena eftir að samið hafði verið við uppreisnarmennina um lausn Sgrena snemma í síðasta mánuði. Þegar fólkið nálgaðist varðstöð Bandaríkjahers við Bagdad í bifreið hófu hins vegar bandarískir hermenn að skjóta á hana og lést Calipari þegar hann fleygði sér yfir Sgrena til að verja hana fyrir skothríðinni. Þá særðist Sgrena einnig í árásinni.  Ítölsk og bandarísk stjónvöld hafa deilt um aðdraganda málsins og segja Bandaríkjamenn að bíll Ítalanna hafi nálgast varðstöðina á miklum hraða og að hermennirnir hafi m.a. skotið viðvörunarskotum en Ítalir segja að Bandaríkjamenn hafi verið látnir vita af komu fólksins og að bíllinn hafi verið stöðvaður áður en skothríðin hófst. Skýrslan um málið hefur ekki verið gerð opinber, m.a. vegna þessara ágreiningsmála, en í henni kemur fram að bandarískurhermennirnir hafi aðeins framfylgt fastri aðgerðaáætlun innan hersins. Ljóst er að málið er Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, afar erfitt þar sem andstaða við hernaðinn í Írak er mikil á Ítalíu, en það var hann sem fór fram á það að bandarísk stjórnvöld rannsökuðu málið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×