Erlent

Þjarmað að Joshka Fischer

Joshka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, mátti í allan gærdag svara spurningum þingmanna um fyrirmæli sín um útgáfu vegabréfsáritana til erlendra ferðamanna sem andstæðingar hans segja að hafi orðið til þess að opna austur-evrópskum glæpamönnum leið inn í Þýskaland og þar með á allt evrópska efnahagssvæðið. Málið hefur reynst Fischer afar erfitt, hann mætti í þýska þingið klukkan tíu í gær til að bera vitni og svaraði spurningum langt fram yfir kvöldmat. Fyrir fimm árum fyrirskipaði Fischer að rýmkað skyldi á reglum um útgáfu vegabréfaáritana. Í kjölfarið varð auðveldara fyrir íbúa Austur-Evrópu að komast til Þýskalands og að sögn nýttu úkraínskir glæpamenn sér það meðal annars til mansals. Fischer viðurkenndi að hann hefði gert mistök en sagði það mjög orðum aukið að glæpamenn hefðu nýtt sér aðstöðuna, glæpatíðni í Þýskalandi bæri þess ekki vitni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×