Innlent

Eftirlaunafrumvarp í bígerð

Forsætisráðuneytið kannar nú lagalegar afleiðingar þess ef lögum um eftirlaun ráðherra og þingmanna yrði breytt. Þingflokkur Framsóknarflokksins ræddi málið á þingflokksfundi í gær. Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir að í forsætisráðuneytinu sé vinna í gangi við frumvarp til breytinga á lögunum líkt og boðað hafi verið. Hjálmar segir að fyrirhugaðar breytingar á lögunum varði ekki þau ákvæði sem breyttust við samþykkt eftirlaunafrumvarpsins svokallaða fyrir tveimur árum, heldur eldri ákvæði sem í ljós kom þá að voru til staðar. Spurður hvort ekki þurfi samþykki beggja flokka til að leggja fram stjórnarfrumvarp um breytingar á lögunum sagði Hjálmar að varast beri að oftúlka ummæli Davíðs Oddssonar um málið. "Ég held að hann hafi verið að skírskota til eftirlaunafrumvarpsins sjálfs sem samþykkt var fyrir tveimur árum en hitt var eldra ákvæði sem þingið hafði ekki áttað sig á fyrr en þarna," sagði Hjálmar og áréttaði að það væri nú til skoðunar. Frá því að Fréttablaðið sagði frá því í frétt í janúar að sjö fyrrverandi ráðherrar þæðu sautján milljónir í eftirlaun auk þess að vera á launum hjá ríkinu hafa orðið miklar umræður um málið. Þverpólitísk sátt varð um það í kjölfarið - ef sjálfstæðismenn eru undanskildir - að breyta þessu ákvæði í lögunum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins óttast sjálfstæðismenn afleiðingar lagabreytinga og vilja því sem minnst hrófla við lögunum. Þeir benda á að samkvæmt eignarréttaákvæði stjórnarskrárinnar megi ekki taka rétt af mönnum sem þeir hafi þegar áunnið sér samkvæmt lögum. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ræddi málið ekki á fundi sínum í gær að sögn þingflokksformannsins, Einars K. Guðfinssonar. "Eftirlaunalögin voru samþykkt fyrir tveimur árum og því engin ástæða til að ræða þau á þingflokksfundi nú," sagði Einar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×