Erlent

Mannskætt lestarslys í Japan

Að minnsta kosti 50 manns fórust þegar farþegalest fór út af sporinu nærri Osaka í Japan í nótt og keyrði utan í íbúðarblokk. Nærri 300 manns slösuðust í árekstrinum, bæði farþegar lestarinnar, vegfarendur í nágrenninu og íbúar í blokkinni sem lestin keyrði utan í. Lestin lenti á bíl þar sem lestarteinarnir liggja yfir veg en ekki er enn ljóst hvort það var fyrir eða eftir að hún fór út af sporinu. Enn er ekki ljóst hvað olli slysinu en farþegar sem komust lífs af segja að lestin hafi verið komin á allt of mikla ferð skömmu áður en hún fór út af teinunum. Lestin var sjö vagna og fóru þrír fremstu vagnar hennar út af sporinu. Fremsti vagninn fór nánast í tvennt þegar hann skall á fullri ferð á íbúðarblokkinni og vafðist nánast utan um hana í kjölfarið. Nærri 600 farþegar voru um borð í lestinni og voru flestir þeirra á leið til vinnu eða í skóla. Snemma í morgun var eitthvað af fólki enn fast undir braki lestarinnar og meira en hundrað björgunarmenn unnu að því að ná því úr brakinu. Slysið í nótt er mannskæðasta lestarslys í Japan í meira en 40 ár. Óttast er að tala látinna muni hækka þegar líða tekur á daginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×