Erlent

Lögreglustöð vantar í Kristjaníu

Sér lögreglustöð verður að vera í fríríkinu Kristjaníu, segja þingmenn dönsku stjórnarandstöðunnar í framhaldi af skotárás þar á fimmtudag. Hugmyndin hefur verið á langtíma áætlun lögreglunnar, en yfirmenn lögreglunnar í Kaupmannahöfn eru ósammála um ágæti hennar. Sighvatur Jónsson er í Danmörku. Einn lést og fimm særðust í skotárás í Pusher-stræti í Kristjaníu á fimmtudag. Árásin var skipulögð en fimm menn skutu úr bíl minnst þrjátíu og fimm skotum, m.a. af vélbyssum. Danska lögreglan veit ekki með vissu hverjir voru að verki en rannsóknin beinist einna helst að átökum um hassmarkaðinn í fríríkinu. Dagblaðið Politiken skrifar í morgun um hugmynd frá tveimur flokkum í stjórnarandstöðunni um að auka þurfi eftirlit á svæðinu með sér lögreglustöð, en framtíð Kristjaníu er einmitt til umræðu þessa dagana á danska þinginu. Hugmyndin hefur verið á langtímaáætlun lögreglunnar. Yfirmaður innan lögreglunnar í Kaupmannahöfn sagði við danska ríkisútvarpið í morgun að hann óttaðist ekki að slík stöð myndi virka ögrandi á íbúa Kristjaníu, enda þurfi stöðin ekki að vera staðsett innan marka fríríkisins. Annar yfirmaður í lögreglunni segir hið gagnstæða við Politiken: að hann óttist að slík stöð muni senda röng skilaboð til íbúa Kristjaníu, sem bæti ekki ástandið. Yfirmaður rannsóknar málsins hefur sagt í fréttum að líklega hafi verið um skiplagða hefnd að ræða sem tengja megi við átök sem áttu sér stað kvöldið fyrir árásina. Hann vill þó ekki segja með vissu að málið tengist átökum um hassmarkaðinn. Jyllands Posten skrifar í morgun að hassstríðið í Kristjaníu snúist um allt að eina milljón danskra króna, um ellefu milljónir íslenskar. Blaðið segir þrjá hópa bítast um markaðinn; hóp innflytjenda úr Nørrebro-hverfinu í Kaupmannahöfn, meðlimi í mótorhjólagengi og upphaflegu hasssalana í fríríkinu. Átökin eru sögð hafa versnað eftir rassíu lögreglunnar fyrir ári sem þykir hafa dregið hassmarkaðinn niður á harðara plan undirheimaviðskipta. Sá sem lést í árásinni var 26 ára og er sagður hafa verið sendill fyrir hasssölumenn. Athöfn var haldin til minningar um hann í Kristjaníu í gærkvöldi, og tóku um hundrað manns þátt í henni. Við athöfnina sagði presturinn að áður en lögreglan rýmdi Pusher-stræti fyrir ári hafi hassviðskipti farið fram á öruggari hátt. Nú séu þau ofurseld hörðu ofbeldi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×