Erlent

Moska sprengd og þyrlu grandað

Bílsprengja sprakk við mosku sjía-múslima á meðan föstudagsbænir stóðu yfir í Bagdad í gær, með þeim afleiðingum að átta manns féllu í valinn og tuttugu særðust, að sögn lögreglu. Sprengingin varð um sama leyti og tveir hópar uppreisnarmanna eignuðu sér ábyrgð á því að hafa skotið niður þyrlu sem ellefu óbreyttir borgarar voru um borð í. Annar hópanna sendi frá sér myndbandsupptöku sem fullyrt var að sýndi liðsmenn hans skjóta eina manninn sem var með lífsmarki í þyrluflakinu. Þyrlan var rússnesk að gerð, áhöfnin búlgörsk en farþegarnir bandarískir. Þá var í gær einnig birt myndbandsupptaka á Al-Jazzeera-sjónvarpsstöðinni sem sagt var að sýndi þrjá rúmenska fréttamenn sem uppreisnarmenn námu á brott 28. mars. Ásamt upptökunni var flutt yfirlýsing frá gíslatökumönnunum þess efnis, að yrðu rúmensku hermennirnir sem eru í Írak ekki kallaðir heim innan fjögurra daga yrðu gíslarnir teknir af lífi. Bænahús sjía-múslima hafa að undanförnu ítrekað orðið skotmark skæruliða úr röðum súnnía. Nærri 100 manns fórust í sjálfsmorðssprengjuárásum á trúarsamkomur sjía í febrúar síðastliðnum. Þá féll bandarískur hermaður er sprengja sprakk við vegbrún í bænum Tal Afar í Norður-Írak. Árásir gærdagsins marka nýtt hámark mannskæðra ofbeldisverka frá því í kring um þingkosningarnar 30. janúar síðastliðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×