Erlent

Líkum fleygt á víðavangi

Sænska lögreglan rannsakar nú þrjú óhugnanleg morðmál þar sem líkum fórnarlambanna hefur verið fleygt á víðavangi. Búið er að bera kennsl á tvö líkanna. Ekkert samband er talið vera milli morðanna. Fyrsta líkið fannst sundurhlutað í mörgum hlutum í miðborg Stokkhólms um síðustu mánaðamót. Líkamshlutunum hafði verið pakkað inn í plast og þeim fleygt í sjóinn. Erfiðlega hefur gengið að bera kennsl á líkið en nú er staðfest að það er af 46 ára gömlum Stokkhólmsbúa af sænskum uppruna. Maðurinn var útigangsmaður og ljóst að banamein hans var höfuðhögg. Ekki er vitað hversu langt er síðan maðurinn var myrtur né heldur hefur neinn verið handtekinn í sambandi við morðið. Hin líkin tvö fundust í nágrenni Stokkhólms í byrjun vikunnar, annað á skógarsvæði við bæinn Gnesta skammt sunnan við borgina og hitt á svæði sem heitir Norsborg sem er vinsælt útivistarsvæði sunnan Stokkhólms. Líkið sem fannst við Gnesta var innpakkað í plast líkt og líkið sem fannst í Stokkhólmi. Það fannst í heilu lagi og er af 49 ára gömlum manni af kúrdískum uppruna sem hvarf í desember á síðasta ári og hefur verið leitað. Hann er tengdur mönnum í forystu kúrdíska verkamannaflokksins PKK, þannig að lögreglan útilokar ekki að morðið eigi sér pólitískan bakgrunn. Aukinheldur hefur maðurinn ítrekað verið dæmdur fyrir ofbeldisglæpi. Þriðja líkið sem fannst í gröf við Norsborg var höfuðlaust og hefur lögreglu ekki tekist að skera úr um hvort það er að konu eða karli. Reyndar var beinagrindin ein eftir af líkinu þannig að talið er að langt sé um liðið síðan viðkomandi var myrtur. Beinist rannsóknin að mannshvörfum á svæðinu og hefur lögregla sérstaklega beint sjónum sínum að manni sem hvarf fyrir ellefu árum. Morð er framið í Stokkhólmi um það bil þriðja hvern dag



Fleiri fréttir

Sjá meira


×