Erlent

Blendin viðbrögð við páfavali

Benedikt XVI páfi hét því í gær, á fyrsta vinnudeginum eftir kjörið á þriðjudag, að vinna markvisst að því að sameina alla kristna menn, rétta öðrum trúarbrögðum sáttahönd og halda áfram að hrinda í framkvæmd umbótum á kaþólsku kirkjunni. Er hinn nýi páfi kynnti stefnumál sín í ávarpi á latínu til kardinálanna í Páfagarði lagði hann sérstaka áherslu á að hann myndi leitast við að starfa áfram í anda forvera síns, Jóhannesar Páls II, sem hann kallaði raunar "hinn mikla" í fyrsta ávarpinu sem hann flutti eftir kjörið. Það er einmitt þessi vissa um að hinn nýi páfi hyggist fylgja mjög ákveðið fram sömu stefnu og fyrirrennarinn sem veldur því að viðbrögðin við kjöri hans hafa verið misjöfn. Gleði meðal kaþólskra um allan heim yfir því að kirkjan hefði eignast nýjan leiðtoga blandaðist áhyggjum af því að maðurinn sem valdist til starfans, íhaldssami þýski kardinálinn Joseph Ratzinger, kynni að valda frekari flokkadráttum innan kirkjunnar er hún stendur frammi fyrir áskorunum á borð við æ minnkandi áhuga fólks í ríkari löndum á að tengjast starfi kirkjunnar, "landvinningum" mótmælendasöfnuða á borð við söfnuði sjónvarpspredikara, einkum í Rómönsku Ameríku, þrýstingi á að hún taki upp jákvæðari afstöðu til notkunar getnaðarvarna vegna eyðnifaraldursins, og þannig mætti lengi telja. "Hann gæti reynst sundrungar- frekar en sameiningarafl," hefur AP-fréttastofan eftir séra Thomas Reese, ritstjóra bandaríska jesúítaritsins America. Í heimalandi hins nýja páfa sögðu bæði kanslarinn Gerhard Schröder og forsetinn Horst Köhler að Þjóðverjum væri heiður að því að landi þeirra skyldi hafa valist á páfastól. En viðbrögðin meðal kirkjunnar manna og almennings skiptust mjög í tvö horn. "Þetta getur ekki verið satt," sagði kaþólsk húsmóðir frá Bæjaralandi, uppvaxtarhéraði páfa, sem var mætt á Péturstorgið til að fylgjast með páfakjörinu. "Ég hafði svo innilega vonað að við myndum eignast góðan páfa sem myndi gera eitthvað fyrir konur ... þetta er hræðilegt!"



Fleiri fréttir

Sjá meira


×