Erlent

Fleiri umdeild handabönd

Handabönd þjóðarleiðtoga við útför páfa ætla að draga dilk á eftir sér. Karl Bretaprins segist óvart hafa tekið í höndina á Mugabe, forseta Simbabve, og fær skammir fyrir. Og forseti Ísraels er sakaður um að ljúga því að Íransforseti hafi tekið í höndina á honum. Ekki er víst að páfi sjálfur hefði haft velþóknun á þessari misklíð, enda mikill boðberi friðar og sátta, en það var kannski ekki við öðru að búast þegar 200 þjóðarleiðtogar hittast sem margir eru engir sérstakir vinir. Karl Bretaprins er harðlega gagnrýndur fyrir að taka í höndina á Robert Mugabe, forseta Simbabwe, en Mugabe er ekki hátt skrifaður í Evrópu vegna stjórnarfarsins í landinu. Fulltrúi prinsins segir að það hafi komið Karli algjörlega að óvörum þegar Mugabe teygði sig yfir til hans og rétti fram höndina á ákveðnum stað í athöfninni þar sem gestir áttu samkvæmt hefð að taka í hönd sessunauta. Karl hafi ekki með góðu móti getað sleppt því að taka í útrétta hönd Mugabes, segir fulltrúi prinsins, og undirstrikar að Karl hafi viðurstyggð á stjórn Mugabes. Þetta er ekki eina handtakið sem hefur vakið úlfúð. Kalt er á milli Íransstjórnar og Ísraels en Íranar viðurkenna ekki Ísraelsríki. Forseti Ísraels, Moshe Katzav, segir hins vegar að forseti Írans hafi tekið í hönd sér og hann hafi með gleði tekið við handabandinu. Þetta segir Khatami Íransforseti vera helbera lygi, eins og annað sem fram kæmi í ísraleskum fjölmiðlum.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×