Erlent

Miðborg Rómar að springa

Rómaborg er að springa á saumunum og yfirvöld segja að það komist hreinlega ekki fleiri fyrir í miðborginni. Fólk er hvatt til að halda sig fjarri. Yfirvöld í Rómarborg hvetja nú þá pílagríma sem koma til borgarinnar til að sjá páfa til þess að halda sig fjarri miðborginni vegna öngþveitis. Fjórar milljónir pílagríma hafa þegar lagt leið sína til Rómar síðan á sunnudaginn og er búist við að nokkrar milljónir manna eigi enn eftir að bætast við. Þegar horfir til vandræða í borginni en þar búa alla jafna þrjár milljónir manna. Lögregluyfirvöld segja útilokað að þeir sem koma til Rómar héðan af geti verið viðstaddir jarðarförina á morgun þar sem svæðið í kringum Péturstorgið anni alls ekki fleira fólki. Þeir sem gista í bráðabirgðatjaldborgum í nágrenni Rómar eru hvattir til að halda sig þar á morgun og horfa á útförina á risaskjám sem komið verður fyrir um alla borgina. Klukkan átta í gærkvöldi var hætt að hleypa fólki í biðröðina fyrir utan Péturskirkjuna en þá var röðin tveir kílómetrar. Í morgun reyndi lögregla þó að koma til móts við það fólk sem ekki hafði náð til borgarinnar í tæka tíð og hleypti tímabundið nokkur þúsund manns í viðbót inn í röðina til að sjá páfa. Fyrirmenni og þjóðarleiðtogar flykkjast nú til Rómar og öryggisgæsla hefur verið hert til mikilla muna. Þúsundir ítalskra hermanna og lögreglumanna hafa verið kallaðir út til að sinna gæslu. Erfðarskrá páfa, sem er 15 blaðsíður, verður birt almenningi í dag. Að sögn fjallar skjalið meira um andleg málefni en veraldlegar eigur páfa sem eru fáar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×