Erlent

Líbanon er ekki Úkraína

Atburðir síðustu vikna hafa glætt vonir margra um að langþráð lýðræðisþróun sé loks hafin í Mið-Austurlöndum. Það er ekki síst svonefnd sedrusbylting í Líbanon sem hefur vakið athygli en síðan Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, var myrtur á dögunum hefur fjöldi fólks mótmælt afskiptum Sýrlendinga af stjórnmálum landsins. Fjölmennustu mótmælin fóru hins vegar fram í vikunni þegar Hizbollah-samtökin fengu hálfa milljón manna út á göturnar til að andæfa erlendri íhlutun og styðja Sýrlendinga. Þau vöktu hins vegar ekki eins mikla athygli enda falla þau illa að kenningum þeirra sem telja að hægt sé að flytja út lýðræði frá Vesturlöndum eins og hverja aðra vöru. Staðan er einfaldlega flóknari en svo. Bakslag í sedrusbyltinguna Það var ekki nóg með að fjöldafundur Hizbollah-samtakanna á þriðjudaginn hefði verið margfalt fjölmennari en mótmælin gegn Sýrlendingum að undanförnu heldur virtist önnur þjóð hafa safnast saman í miðborg Beirút. Í stað ungmenna klæddum að vestrænum sið voru dökkklæddir sjíar allsráðandi. Yfir hópnum þrumaði Hassan Nasrallah, leiðtogi samtakanna, að Líbanon væri ekki Úkraína og vísaði þar með á bug að ámóta hreyfing væri á ferðinni í Líbanon og sú sem studdi Viktor Júsjenkó til valda í Úkraínu. Enn eitt bakslagið kom svo í sedrusbyltinguna á fimmtudaginn þegar líbanska þingið skipaði Omar Karami forsætisráðherra á nýjan leik en hann hafði sagt af sér embætti í kjölfar ásakana um að hann væri leppur Sýrlendinga. Öflugur hernaðararmur Hizbollah-samtökin eru í hugum flestra hryðjuverkasamtök sem stóðu fyrir margs konar óhæfuverkum á tímum borgarastríðsins í Líbanon. Þannig er ekki langt síðan bandarískir embættismenn létu þá skoðun í ljós að samtökin væru jafnvel hættulegri en al-Kaída. Staða Hizbollah í líbönsku samfélagi er hins vegar önnur og flóknari. Eftir að herlið hreyfingarinnar hrakti Ísraelsmenn að lokum frá suðurhluta landsins árið 2000 hefur Hizbollah einkum unnið að því að bæta hag sjía, fátækasta og fjölmennasta þjóðarbroti landsins, með því að reisa heilsugæslustöðvar og skóla svo dæmi séu tekin. Jafnframt hafa þau tekið þátt í hefðbundnu stjórnmálastarfi og var Hizbollah óumdeildur sigurvegari í sveitarstjórnarkosningum í Líbanon í fyrra. Að mörgu leyti svipar Hizbollah því til Hamas-samtakanna í Palestínu. Hernaðararmur samtakanna er hins vegar enn í fullu fjöri. 20.000 manns eru undir vopnum á þeirra vegum og af og til kemur til átaka á milli þeirra og Ísraelsmanna á landamærum ríkjanna. Í fyrrahaust samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun þar sem skorað var á Hizbollah að afvopnast um leið og Sýrlendingar voru hvattir til að draga sig til baka frá Líbanon. Berst ekki gegn lýðræðinu Með þetta í huga er ekki erfitt að skilja hvernig Hizbollah getur fengið slíkt fjölmenni út á göturnar til að styðja Sýrlendinga. Stór hluti líbönsku þjóðarinnar geldur einfaldlega varhug við hugmyndum Bandaríkjamanna um lýðræðisumbætur á svæðinu og telur að tilgangurinn sé fyrst og fremst að styrkja stöðu Ísraela. Innrásin í Írak og þrýstingurinn gegn Írönum og Sýrlendingum er liður í því verkefni þar sem þessar þjóðir hafa velgt Ísraelsmönnum undir uggum í gegnum tíðina, rétt eins og Hizbollah-samtökin sjálf. Enda þótt flokkadrættirnir snúist að hluta til um hvort Líbanar ætli að stökkva á lýðræðisvagn Bandaríkjanna eða standa með bandamönnum sínum á meðal arabaþjóðanna þá er það hins vegar einföldun að segja að Hizbollah og stuðningsmenn vilji að Líbanon verði áfram undir járnhæl Sýrlands. Báðar fylkingarnar eru sammála um að Sýrlendingar verði að hafa sig á brott á endanum og báðar vilja festa lýðræði og frið í landinu í sessi. Með andstöðu sinni við lýðræðisverkefni Bandaríkjamanna er Hizbollah því ef til vill fyrst og fremst að reyna að viðhalda trúverðugleika sínum og sérstöðu enda hafa samtökin umbreyst nokkuð hratt á síðustu árum í hefðbundna stjórnmálahreyfingu. Þrátt fyrir að þau séu tortryggin í garð Vesturlanda þá er ekki þar með sagt að þau séu á móti lýðræðisþróuninni. Þvert á móti, Hizbollah nýtur mikils stuðnings hjá stærsta þjóðarbrotinu í landinu og ætti því að geta náð lykilstöðu í landsmálunum þegar gengið verður til kosninga í sumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×