Erlent

Auglýsingabann hugsanlega ólögmætt

EFTA-dómstóllinn úrskurðaði í gær að algjört bann við áfengisauglýsingum kynni að vera ólögmætt. Dómurinn segir að til að réttlæta bannið þurfi að sýna fram á að ekki sé hægt að ná markmiðum þess með aðgerðum sem hafa minni áhrif á markaðsfrelsi. Líkt og hér ríkir í forvarnarskyni algjört bann við áfengisauglýsingum í Noregi. Norskir dómstólar leituðu eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um hvort bannið kynni að vera ólögmætt. Í dómsorði segir að gæta verði meðalhófs í þessum efnum og gefur dómstóllinn meðal annars upp leiðbeiningar um hvað gætu talist málefnalegar takmarkanir á markaðsfrelsi. Í leiðbeiningunum er meðal annars kveðið á um bann við áfengisauglýsingum í sjónvarpi, auglýsingum á víni sem er sterkara en 23 prósent eða á auglýsingum sem beint er til ungmenna eða ökumanna. Löglærðir segja það hins vegar norskra dómstóla að meta hvort þessar leiðbeiningar eigi við í þeirra landi eða ekki. Þá kann dómurinn að verða til þess að endurskoða þurfi takmarkanir á áfengisauglýsingum hér á landi og mun dómur EFTA þá líklega hafa áhrif á hvernig dómstólar fjalla um málið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×