Erlent

Deilumálin hrannast upp

Þeir eru enn þá vinir en deilumálin hrannast upp og það verður æ grynnra á því góða með þeim. Íran, Tsjetsjenía, Kyoto-bókunin, lýðræði og frelsi fjölmiðla eru meðal ágreiningsefna Bush og Pútíns sem hittust á fundi í dag. Það hefur alltaf verið sérstakt samband á milli George Bush og Vladímírs Pútíns. Pútín hefur heimsótt Bush á búgarð hans í Texas og samstarfsmenn Bush segja að hann hafi ætíð borið mikla virðingu fyrir Pútín. Skugga hefur borið á þessi vinsamlegu samskipti að undanförnu og stjórnvöld í Rússlandi og Bandaríkjunum eru æ oftar á öndverðum meiði. Það er svo sem ekkert nýtt í því að Bandaríkjastjórn sé á annarri skoðun en aðrar þjóðir um ýmis utanríkismál. Ágreiningurinn ristir dýpra þegar kemur að innanríkismálum Rússa því þar telja Rússar að Bandaríkjastjórn sé með puttana í málum sem þeim komi ekki við. Það sem veldur stjórnvöldum í Bandaríkjunum áhyggjum og reyndar mörgum Evrópulöndum líka eru vaxandi einræðistilburðir Pútíns sem hefur múlbundið bæði andstæðinga sína og fjölmiðla. Pútín segist aðeins vera að aðlaga lýðræðishugmyndina að rússneskum veruleika og hefðum. Tsjestjenía er annað ágreiningsefnið og reyndar úrskurðaði mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg í dag að rússnesk yfirvöld hefðu brotið gróflega á mannréttindum Tsjetsjena með framgöngu sinni og aðgerðum gegn aðskilnaðarsinnum í héraðinu. Pútín segist þar vera í baráttu við hryðjuverkamenn, vísar í aðgerðir Bandaríkjastjórnar sjálfrar og segir hana sýna tvískinnung í málinu. Í dag sammæltust Bush og Pútín hins vegar um nauðsyn þess að hvorki Norður-Kórea né Íran kæmu sér upp kjarnorkuvopnum og þá hét Bush því að hann myndi reyna að liðka fyrir inngöngu Rússa í Alþjóðaviðskiptastofnunina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×