Erlent

Bush og Pútín funda í Slóvakíu

Búist er við hressilegum orðaskiptum á milli George Bush, Bandaríkjaforseta, og Vladimir Putins, forseta Rússlands, sem eru í þann mund að setjast niður til fundar í Slóvakíu. Bush heldur yfirreið sinni um Evrópu áfram og er nú komin til Bratislava í Slóvakíu. Hann ávarpaði almenning í morgun og sat fund með þarlendum stjórnvöldum. Allra augu beinast hins vegar að fundi Bush og Pútíns nú um hádegisbilið. Jafnvel er búist við einhvers konar uppgjöri á milli Bush og Pútíns sem hingað til hafa átt í ágætum samskiptum og verið góðir vinir. Breyting gæti orðið þar á og margt kemur til. Í fyrsta lagi hafa yfirvöld í Bandaríkjunum og reyndar víða í Evrópu líka haft miklar áhyggjur af vaxandi einræðistilburðum Pútíns sem hefur safnað að sér völdum og múlbundið fjölmiðla í landinu. Pútín stendur hins vegar fast á sínu og segist aðeins vera að aðlaga lýðræðishugmyndina að rússneskum veruleika, hefðum og sögu. Í öðru lagi eru Bandaríkin og Rússland á öndverðum meiði í mörgum utanríkismálum. Nægir að nefna Írak en málefni Írans vega hins vegar þyngst nú um stundir. Rússar hafa aðstoðað stjórnvöld í Íran við að reisa kjarnorkuver til raforkuframleiðslu sem Bandaríkjamenn segja að Íranir muni nota til að búa til kjarnorkuvopn. Mun fleiri deilumál hafa skotið upp kollinum. Rússar staðfestu til að mynda Kyoto-bókunina í andstöðu við Bandaríkjamenn og sem varð til þess að bókunin varð að alþjóðalögum í síðustu viku. Þá eru skoðanir skiptar um framgöngu Rússa í Tsjetsjeníu svo fátt eitt sé nefnt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×