Erlent

Ríkisstjórnarmyndun gengur illa

Brösulega gengur að koma saman starfhæfri ríkisstjórn í Írak eftir kosningarnar í síðasta mánuði. Andstæðar pólitískar fylkingar berjast um bitana. Ibrahim Al-Jaafari, sem fer fyrir bandalagi sjíta, er talinn líklegastur til þess að verða næsti forsætisráðherra Íraks þar sem sjítabandalagið fékk langmest fylgi í nýafstöðum kosningum. En málið er þó ekki alveg svona einfalt. Iyad Allawi, sem hefur verið forsætisráðherra bráðabirgðarstjórnarinnar í Írak, virðist ekki ætla að gefa starfið eftir þegjandi og hljóðalaust og hefur nú lýst því yfir að hann sé að reyna að mynda bandalag með öðrum flokkum í því augnamiði að halda embætti sínu og völdum. Al-Jaafari og Allawi eru báðir sjítar en munurinn á þeim felst kannski helst í því að Allawi leggur ekki mikla áherslu á trúarbrögðin í sinni pólitík en það gerir Al-Jaafari hins vegar. Almenningi í Írak finnst Allawi hins vegar of tengdur bandaríska setuliðinu til að hægt sé að treysta honum fyllilega og hallast því frekar að Al-Jaafari sem er álitinn óspilltur pólitíkus sem að auki nýtur stuðnings Alis Sistanis sem er áhrifamesti trúarleiðtogi sjíta. Að minnsta kosti tíu hafa fallið í valinn og 25 eru slasaðir eftir að bílsprengja sprakk í borginni Tíkrít í Írak í morgun. Árásarmaðurinn, sem var í lögreglubúningi, reyndi að aka bílnum inn á lóð lögreglustöðvar en þegar hann sá að hann myndi ekki komast lengra sprengdi hann sjálfan sig og bílinn í loft upp. Bandaríkjamenn skutu í gær úr lofti á Anbar-hérað í Írak þar sem fjöldi uppreisnarmanna heldur til. Í gær voru 29 uppreisnarmenn teknir höndum í héraðinu og eins lögðu hermenn hald á mikið af vopnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×