Sport

Wayne Bridge ökklabrotinn

Chelsea þarf að leika án vinstri bakvarðarins Wayne Bridge það sem eftir lifir leiktíðarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Enski landsliðsmaðurinn var borinn af velli í leik Chelsea og Newcastle í ensku bikarkeppninni á sunnudag eftir harkalega tæklingu Alan Shearer. Chelsea þurfti í kjölfarið að leika manni færri nær allan seinni hálfleikinn þar sem Jose Mourinho knattspyrnustjóri hafði skipt öllum varamönnunum þremur inn á í hálfleik. Síðdegis í dag kom í ljós að Bridge er ökklabrotinn og tímabilinu því lokið hjá honum. Þetta eru mikil vonbrigði fyrir Chelsea sem eiga ekki marga möguleika með vinstri bakvarðarstöðuna og erfiðasti hluti tímabilsins framundan. Félagið seldi Celestine Babayaro til Newcastle í vetur og William Gallas, sem getur líka leikið vinstri bakvörðinn, er meiddur og ekki víst að hann verð til í slaginn fyrir viðureignina gegn Barcelona í Meistaradeildinni á miðvikudag. Hægri bakvörðurinn Paulo Ferreira getur leikið þessa stöðu og Glen Johnson tekið hægri bakvörðinn en Johnson lauk leiknum gegn Newcastle í markinu eftir að Cudicini var rekinn út af. Þar kom í ljós að Johnson er liðtækur með hanskana því hann varði glæsilega þrumuskot á lokamínútu leiksins. Chelsea misstu annan lykilmann á dögunum en Arjen Robben er meiddur og ekki öruggt að hann leiki aftur á tímabilinu. Þá hefur sóknarmaðurinn Didier Drogba ekki gengið heill til skógar undanfarið en getur hugsanlega komið inn á gegn Barcelona.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×