Innlent

Stjórnin framdi stjórnarskrárbrot

Stjórnvöld frömdu stjórnarskrárbrot með því að heimila notkun landsins til árásar á Írak segir Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar. Hann hyggst krefja forsætisráðherra skýringa á því hvers vegna herir bandamanna fengu leyfi til að hafa hér viðdvöl vegna árásarinnar, löngu áður en listi hinna staðföstu þjóða varð að veruleika.  Í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að íslensk stjórnvöld gáfu leyfi til þess í febrúar árið 2003 að herflugvélar gætu flogið um íslenska lofthelgi og haft hér viðdvöl vegna innrásar í Írak. Listi hinna staðföstu þjóða var ekki birtur fyrr en 18. mars eða þremur vikum síðar. Össuri finnst með ólíkindum að heyra þetta og segir málstað íslenskra stjórnvalda miklu verri en hann hafi birst hingað til vegna þessa. Þau hafi nefnilega gefið í skyn að stuðningurinn við innrásina í Írak hafi ekki verið veittur fyrr en í bláaðdraganda hennar. Nú sé hins vegar hugsanlegt, í ljósi þessara upplýsinga, að ríkisstjórnin hafi farið á bak við þingið og þjóðina. „En ég vil ekki á þessu stigi draga þá ályktun sem liggur beinast við að draga. Ekki fyrr en ég hef átt kost á því að spyrja Halldór Ásgrímsson beint út um þetta í Alþingi Íslendinga. Það ætla ég að gera síðar í dag,“ segir Össur. Hártoganir hjá formanni Samfylkingarinnar segja eflaust einhverjir og benda má á að Eiríkur Tómasson lagaprófessor hefur sagt ákvörðunartöku utanríkis- og forsætisráðherra, um að styðja aðgerðir Bandaríkjamanna og Breta, löglega. Að þessu sinni er formaður Samfylkingarinnar ósammála lagaprófessornum og segist telja koma til álita að brotið hafi verið það ákvæði í stjórnarskránni þar sem segir að ekki megi leggja kvaðir á land nema með samþykki Alþingis. „Ég spyr nú Eirík Tómasson: Er hægt að leggja meiri kvaðir á land heldur en þær að heimila notkun þess til árása sem eru í andstöðu við stofnskrá Sameinuðu þjóðanna og þar af leiðandi ólögmætar að alþjóðalögum eins og Kofi Annan hefur sagt?“ segir Össur Skarphéðinsson. 


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×