Sport

Þór kærir Keflavík

Þór á Akureyri hefur kært knattspyrnudeild Keflavíkur fyrir að setja sig í samband við samningsbunda leikmenn Þórs. Skrifstofa KSÍ staðfesti í morgun að kæra hefur borist frá Þór og verður hún tekin fyrir hjá samninga- og félagaskiptanefnd KSÍ í næstu viku. Rúnar Arnarson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, vísar þessum ásökunum Þórsara til föðurhúsanna og segir Keflvíkinga hafa farið í einu og öllu eftir þeim leikreglum sem gilda á þessum markaði. „Við höfum staðið fullkomlega löglega að öllu,“ segir Rúnar. Rúnar segir ekkert launungamál að Keflavík hefði sýnt tveimur leikmönnum Þórs áhuga, þeim Hallgrími Jónassyni og Baldri Sigurðssyni. Að sögn Rúnars hafði hann samband við stjórn Þórs og gerði tilboð í Hallgrím sem var hafnað. Baldur er hins vegar í láni hjá Þór frá Völsungi. Rúnar segist hafa sett sig í samband við Völsung, enda Baldur samningsbundinn þeim, og hann hefði látið Þórsara vita af því. Að sögn Rúnars er því engin forsenda fyrir ásökunum Þórsara. „Þeir eru einfaldlega svekktir vegna þess að leikmenn þeirra vilja koma til okkar,“ segir Rúnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×