Lífið

Stofnað eftir hörmungar

Í dag er 77 ára afmæli Slysavarnafélags Íslands, sem stofnað var í Reykjavík 29. janúar árið 1928. Félagið heitir í dag Slysavarnafélagið Landsbjörg eftir sameiningu við björgunarsveitir Landsbjargar árið 1999. Fyrsti formaður félagsins var Guðmundur Björnsson landlæknir. "Félagið var stofnað í kjölfar mikillar umræðu í landinu, sérstaklega um sjóslys," segir Þorsteinn Þorkelsson, fjármálastjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, en hann er að auki félagi í Björgunarsveitinni Ársæli í Reykjavík og sagnfræðimenntaður. "Það voru ákveðnir menn sem nefna mætti forkólfa í málinu, svo sem Oddur V. Gíslason í Grindavík. Hann gaf út slysavarnablað sem nefndist Sæbjörg og beitti sér fyrir slysavörnum til sjós." Þá segir Þorsteinn að mannskæð sjóslys í aprílmánuði árið 1906 hafi orðið til þess að umræða um slysavarnir jókst til muna. "Það var ekki síst fyrir Ingólfsslysið við Viðey þar sem Reykvíkingar þurftu að horfa upp á menn farast án þess að geta komið þeim til hjálpar," segir hann, en kútter Ingólfur fórst eftir að hafa kastað akkeri við Viðey vegna þess að ófært var inn í Reykjavíkurhöfn. Gríðarlegir brimskaflar gengu yfir skipið og tíndu menn útbyrðis einn af öðrum þannig að öll 20 manna áhöfn skipsins fórst. "Þá sáu menn að til þyrfti að vera búnaður til að koma mönnum til bjargar og var þá helst horft til svokallaðs fluglínutækis, þar sem skotið er línu með björgunarstól." Samfélagsumræða um nauðsyn þess að koma á fót samtökum sem héldu utan um slysavarnarmál skilaði sér svo að lokum með stofnun Slysavarnafélags Íslands. "Á Alþingi var lagt fram frumvarp til laga um lög félagsins og greinargerð um þau," segir Þorsteinn og bætir við að þáverandi landlæknir, sem varð fyrsti formaður félagsins, hafi verið í forsvari undirbúningsnefndar um stofnun félagsins. "Þetta er auðvitað hörkusaga sem sjálfsagt væri efni í heila bók."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.