Erlent

Fimmtán fangaflugvélar taldar hafa lent í Keflavík

Fangaflugvél. Að sögn norska blaðsins Nytid var CIA með flugvélina N227SV á leigu þegar hún flaug frá Möltu til Keflavíkur í óþekktum tilgangi. Hún fór ekki um danska lofthelgi og er því ekki að finna á lista danska þingsins.
Fangaflugvél. Að sögn norska blaðsins Nytid var CIA með flugvélina N227SV á leigu þegar hún flaug frá Möltu til Keflavíkur í óþekktum tilgangi. Hún fór ekki um danska lofthelgi og er því ekki að finna á lista danska þingsins.

Allt bendir til að flugvélar á vegum bandarísku leyniþjónustunnar CIA með grunaða hryðjuverkamenn innanborðs hafi millilent á Íslandi og í Danmörku, Noregi og Svíþjóð á leið sinni til ríkja þar sem pyntingar eru stundaðar. Ekki er ljóst hversu mikla vitneskju stjórnvöld í þessum löndum hafa haft um eðli flutninganna.

Það eru ekki ný tíðindi að bandarísk stjórnvöld hafi um nokkurra ára skeið flutt grunaða hryðjuverkamenn til ríkja sem vitað er að beiti pyntingum við yfirheyrslur fanga, til dæmis Jórd­aníu, Sýrlands og Líbíu, en slíkt brýtur í bága við sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum.

Þannig greindi bandaríska tímaritið Newsweek frá því fyrr á þessu ári að CIA hefði nokkrar flugvélar á leigu sem notaðar væru til slíkra flutninga, svonefndar draugaflugvélar. Vélarnar líta að öllu leyti út fyrir að vera ætlaðar til borgaralegra nota. Því vekja ferðir þeirra minni athygli en ella enda eru aðrar kröfur gerðar um upplýsingar um borgarlegt flug en hernaðarlegt.

Talsverðar umræður hafa skapast í Danmörku um hvort slíkir flutningar hafi farið um danska lofthelgi. Í sumar spurðu þingmenn Per Stig Møller utanríkisráðherra út í málið og kom fram í svörum ráðherrans að dönsk yfirvöld hefðu látið þá skoðun sína í ljós við Bandaríkjamenn að "Danir óski ekki eftir að lofthelgi landsins sé notuð í tilgangi sem ekki samrýmist alþjóðasáttmálum."

Af þessu má ráða að dönsk stjórnvöld hafi haft grun um að ekki væri allt með felldu. Í októberlok spurði svo Frank Aaen, þingmaður stjórnarandstöðunnar, Flemming Hansen samgönguráðherra í hvaða erinda­­gjörðum flugvél á vegum flugfélags sem vitað er að CIA skiptir við hafi verið á Kastrup-flugvelli í 23 klukkustundir mars á þessu ári.

Staðfest hefur verið að sú flugvél millilenti á Keflavíkurflugvelli í rúman sólarhring. Jafnframt vildi Aaen vita hvort flugvél á leið frá Reykjavík til Búdapest fyrir um þremur vikum síðan hefði farið um danska lofthelgi.

Að sögn dagblaðsins Politiken sagðist ráðherrann hvorki hafa vitneskju um hverjir hefðu verið um borð né hver tilgangur ferðalagsins hefði verið. Í síðasta mánuði fjallaði norska vikuritið Nytid um ferðir slíkra véla um norska lofthelgi og er því meðal annars haldið fram að flugvöllur í Stavangri hafi verið notaður til millilendinga. Blaðið staðhæfir að árið 2001 hafi tveir menn verið teknir höndum í Svíþjóð og þeir síðan fluttir nauðugir til Egyptalands þar sem þeir sættu pyntingum.

Jafnframt er greint frá því að flugvél með einkennisstafina N227SV sem CIA er sögð hafa verið með á leigu hafi farið um norska lofthelgi á leið sinni frá Möltu til Keflavíkur um miðjan desember 2004, en ekkert er vitað hverjir voru um borð. Talsmaður norska utanríkisráðuneytisins kvaðst í samtali við blaðið enga vitneskju hafa um slíkar ferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×