Erlent

Tugþúsundir fastar vegna verkfalls

Sjötíu þúsund ferðamenn eru strandaglópar um allan heim þar sem British Airways hefur fellt niður hundruð flugferða. Ástæðan er skæruverkföll starfsmanna. Verkfallið er samúðarverkfall með starfsfólki veitingafyrirtækis sem selur British Airways flugvélamat. Farangursburðarmenn, rútubílstjórar og hlaðfreyjur mættu ekki til vinnu í gær og heldur ekki í morgun þó að stéttarfélag þeirra segðist ekki styðja aðgerðirnar. Fyrir vikið varð að fella niður nokkur hundruð flugferðir til og frá Heathrow þar sem veitingafyrirtækið starfaði. Þó að British Airways tapi stórfé á þessu öllu saman eru það farþegarnir sem eru í raun fórnarlömbin. Þeir kvörtuðu margir undan lélegu upplýsingastreymi en sumir sögðust skilja aðgerðirnar. Um alla Evrópu var ástandið eins því að þar sat fólk sem hefði átt að fljúga með British Airways en kemst nú ekki neitt. Talið er að 70 þúsund farþegar verði fyrir barðinu á samúðarverkfallinu. Síðdegis sneri meirihluti starfsmannanna í verkfallinu óvænt til vinnu en óvíst er hversu langan tíma tekur að leysa vanda strandaglópanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×