Erlent

Berlusconi segist hafa stafað ógn af sprengjumanni

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu.
Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu. MYND/AP

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, segir að sjálfsmorðsárásarmaður hafi ætlað að ráða hann af dögum á knattspyrnuleik. Hann sakar einnig pólitíska andstæðinga sína um að auka hættuna á hryðjuverkaárásum í landinu með því að draga heilindi hans í efa.

Þessi orð lætur Berlusconi falla í viðtali við ítalska dagblaðið Libero í dag. Berlusconi á ítalska stórliðið AC Milan og fer reglulega á leiki liðsins en í viðtalinu tilgreinir hann ekki nánar hvenær komist hafi upp um áætlunina um tilræði við hann eða hvort hann sé enn í hættu. Haft er eftir talsmanni innanríkisráðuneytisins að andhryðjuverkasveit í landinu hafi fengið upplýsingar um meint tilræði við forsætisráðherrann en hann neitar að gefa frekari upplýsingar um málið.

Berlusconi hefur sætt harðri gagnrýni heima fyrir vegna stuðnings ítölsku ríkisstjórnarinnar við Íraksstríðið, en þrjú þúsund ítalskir hermenn eru nú í Írak. Stjórnarandstaðan segir það hafa leitt til þess að hryðjuverkamenn beini nú sjónum sínum að Ítalíu, en þeir hafa þegar hótað árásum á landið á vefsíðum sínum.

Berlusconi sagði hins vegar í vikunni að hann hefði reynt að fá Bush Bandaríkjaforseta ofan af því að ráðast inn í Írak en fyrir þau orð hefur hann hlotið háð og spott andstæðinga sinna og ítalskra blaða. Í viðtalinu í Libero bregst Berlusconi hart við háðinu og sakar blaðamenn og stjórnarandstæðinga um að vinna gegn hagsmunum Ítalíu og auka hættuna á hryðjuverkum í landinu með gagnrýni sinni.

Innanríksiráðherra Ítalíu, Guiseppe Pisanu, hefur látið hafa eftir sér að hryðjuverkamenn knýi dyra á Ítalíu og að hætta á árásum í landinu verði mest á næsta ári þegar Vetrarólympíuleikar fara þar fram sem og þingkosingar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×