Erlent

Sýrlendingarnir farnir

Síðustu sýrlensku hermennirnir sneru heim frá Líbanon í gær. Þar með lýkur tæplega þrjátíu ára langri hersetu Sýrlendinga í landinu. Liðsflutningar Sýrlendinga hafa staðið yfir síðustu vikur en þeim lauk formlega í gær þegar kveðjuathöfn var haldin í landamærabænum Masnaa. Líbanskir og sýrlenskir herforingjar lögðu blómsveig að minnismerki um hersetuna og skiptust á heiðurspeningum. Að því búnu óku síðustu 250 hermennirnir yfir landamærin. Yfirvöld í Damaskus tilkynntu Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, að herflutningunum væri lokið og mun hann senda erindreka sinn á næstu vikum til landsins til að sannreyna það. Sýrlenskt herlið hefur verið í Líbanon síðan 1976 og eftir að borgarastyrjöldinni lauk þar 1990 hefur liðið tryggt hagsmuni stjórnvalda í Damaskus og bandamanna þeirra. Þegar Rafik Hariri, forsætisráðherra Líbanon, var ráðinn af dögum í febrúar reis hins vegar upp alda mótmæla gegn hernáminu, bæði í Líbanon og erlendis. Ættingjar líbanskra fanga í haldi Sýrlendinga kröfðust þess í gær að ástvinir þeirra yrðu látnir lausir og kom til skæra á milli þeirra og lögreglu í Beirút í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×