Erlent

Límdist fastur við klósettsetu

Bob Dougherty, 57 ára gamall íbúi smábæjarins Nederland í Colorado í Bandaríkjunum, varð fyrir heldur óskemmtilegri reynslu þegar hann fór í verslunarferð til borgarinnar Boulder.

Eftir að hafa spásserað um í byggingavöruversluninni Home Depot, þurfti Dougherty að fara á snyrtinguna. Það sem hann vissi ekki var að óprúttnir menn höfðu sett tonnatak á klósettsetuna, þannig að hann gat ekki með nokkru móti losað sig.

Dougherty kallaði eftir hjálp en starfsmenn verslunarinnar tóku köll hans ekki alvarlega heldur héldu þeir að hann væri að grínast. Það var ekki fyrr en eftir dágóða stund sem starfsmönnunum varð ljóst að Dougherty var full alvara.

Þegar sjúkraflutningamenn komu á vettvang þurfti að losa klósettsetuna og flytja Dougherty með hana fasta við sig á sjúkrahús þar sem hún var losuð. Hann varð sár á afturendanum eftir límið sterka.

Dougherty hefur höfðað mál gegn versluninni Home Depot þar sem hann telur sig hafa orðið fyrir skaða á líkama og sál eftir lífsreynsluna. Hann er hjartveikur og segir að hann hafi um tíma haldið að hann væri að fá hjartaáfall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×