Erlent

Stinningarlyf virðast valda blindu

Grunur leikur á að stinningarlyf á borð við Viagra geti valdið blindu. Bandaríska matar- og lyfjaeftirlitið hefur nú til skoðunar 42 tilvik þar sem menn sem neyttu slíkra lyfja urðu blindir. Engar tilkynningar um slíkt hafa borist Lyfjastofnun Íslands. Bandarískir embættismenn á vegum matar- og lyfjaeftilitsins FDA rannsaka nú hvort mögulegt sé að svonefnd stinningarlyf geti valdið blindu. Þeim hafa borist 42 tilkynningar um karlmenn sem hafa neytt lyfjanna sem síðan misstu sjónina. 38 þeirra höfðu tekið Viagra en fjórir Cialis. Susan Cruzan, talskona FDA, sagði í samtali við fréttamenn að enn væru engar óyggjandi sannanir fyrir því að lyfin hefðu valdið blindunni. "Við tökum þetta hins vegar mjög alvarlega," bætti hún við. Blindan sem mennirnir fengu er af sérstakri tegund sem einkum leggst á hjarta- og sykursjúklinga en getuleysi er jafnframt fylgikvilli þessara sjúkdóma sem aftur fylgir neysla stinningarlyfja. Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem grunur vaknar um hættulegar aukaverkanir á lyfi sem er í nokkuð almennri notkun. Á síðasta ári kom í ljós að svonefndir COX-2 hemlar sem einkum eru notaðir af gigtarsjúklingum leiddu til hjarta og æðasjúkdóma. Þannig var lyfið Vioxx tekið af markaðinum þegar þetta uppgötvaðist. Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að engar tilkynningar hafi borist til stofnunarinnar um blindu af völdum stinningarlyfja. Hún bendir hins vegar á að FDA tæki málið ekki upp nema rík ástæða þætti til. Þá sé jafnframt afar líklegt að fyrst FDA hafi lyfin til skoðunar þá sé slík athugun einnig í gangi hjá lyfjagátanefnd Evrópusambandsins en þar eiga Íslendingar sæti. "Ekkert er lyf er án áhættu, þau valda öll einhverjum aukaverkunum. Hlutverk lyfjayfirvalda er að meta hvort ávinningurinn sé meiri en áhættan. Þess vegna er svo mikilvægt að heilbrigðisstarsmenn tilkynni um aukaverkanir. Þeir mættu standa sig betur í því," segir Rannveig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×