Erlent

Efni gerir drengi kvenlegri

Efni sem notað er í plastpoka, leikföng og snyrtivörur hefur alvarleg áhrif á þroska drengja í móðurkviði. Efnið veldur því að kynfæri þroskast ekki eðlilega og drengirnir verða kvenlegri. Það var hópur bandarískra vísindamanna sem komst að þessari niðurstöðu sem vakið hefur mikla athygli. Lengi hefur verið vitað að efnið, sem nefnist talöt, veldur kynbrenglun hjá dýrum. Kynfæri þroskast ekki eðlilega og dæmi eru um að dýr skipti um kyn sé hátt magn efnisins í umhverfi þeirra. Önnur karldýr fá einkenni kvendýra og gæði sæðis þeirra minnkar. Efnið er gerviefni en bygging þess er ekki ólík hormóni sem er talið geta valdið áhrifunum. Rannsókn bandarísku vísindamannanna bendir til þess að lítið magn efnisins, sem finnst út um allt í daglegu lífi fólks, nægi til að hafa áhrif á þróun kynfæra drengja í móðurkviði. Mælt var magn efnisins í þvagi verðandi mæðra og borið saman við mælingar á afkvæmum þeirra. Miklar líkur voru á því að synir kvenna með hátt magn ákveðinna undirgerða efnisins í þvagi fæddust með kvenleg einkenni, svo sem minni typpi, eistu þeirra voru ekki gengin niður auk þess sem bilið á milli kynfæranna og endaþarmsopsins var stutt en það er annað merki kvenleika. Hver áhrifin verða á drengina þegar þeir verða fullvaxta er ekki ljóst en hjá dýrum hefur þetta leitt til ófrjósemi, lægra testósterónstigi og afbrigðilegra eistna. Vísindamenn segja að efnið hafi áhrif á öll karlmennskuneinkenni: árásargirni, hegðun viðkomandi sem foreldri og jafnvel námshæfni. Nú er unnið að því að rannsaka hvernig efnið berst í líkamann en vitað er að matur sem vafinn er inn í plast drekkur það í sig. Vísindamennirnir segja einnig frekari rannsókna þörf til að staðfesta niðurstöður sínar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×