Innlent

Enn vantar hjúkrunarrými

Hjúkrunarheimili með hundrað og tíu rýmum rís í Sogamýrinni á þarnæsta ári. Það hrekkur þó skammt miðað við núverandi biðlista. Heilbrigðisráðherra vill leysa vandann með því að stórbæta heimaþjónustu við aldraða. Heilbrigðisráðherra og borgarstjóri undirrituðu í dag samkomulag um byggingu hjúkrunarheimilisins, sem áætlað er að muni kosta um þrettán hundruð milljónir. Það verður tæpir sex þúsund og sjö hundruð fermetrar að stærð, með hundrað og tíu hjúkrunarrýmum. Reykjavíkurborg leggur til þrjatíu prósent kostnaðar, sem er helmingi meira en lög gera ráð fyrir. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri segir þörfina enda brýna. 259 manns bíði þannig eftir plássi á hjúkrunarheimili og vinna sé nú í gangi meðal Seltjarnarnessbæjar, heilbrigðisráðuneytisins og Borgarinnar um byggingu annars hjúkrunarheimilis til viðbótar við það í Sogamýrinni. Þá muni losna pláss fyrir um 200 manns.  Steinunn segir það snúast um forgangsröðun að leggja meira fjármagn í málefni aldraðra en borgin þurfi samkvæmt lögum. Hún segir að ekki muni standa á borgaryfirvöldum að finna fjármagn ef heilbrigðisráðherra tekst að fá frekara fjármagn til að byggja hjúkrunarheimili. En jafnvel þó að vel gangi að minnka biðlistana, vill Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra einbeita sér að heimaþjónustunni, þar sem ekki sé hægt að leysa öll mál með því að fjölga stofnunum fyrir aldraða, sem þegar séu orðnar margar. Auglýst verður eftir rekstraraðila fyrir heimilið, þegar endanlega hefur verið gengið frá samningnum um byggingu þess.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×