Innlent

Starfsemi að íslenskri fyrirmynd

Barnahús að íslenskri fyrirmynd verður opnað í Linköping í Svíþjóð í dag. Húsið verður opnað með formlegri athöfn að viðstaddri Silvíu Svíadrottningu. Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu, og Svavar Gestsson, sendiherra Íslands í Stokkhólmi, verða viðstaddir athöfnina. Bragi heldur ræðu við þetta tækifæri og mun svo taka þátt í blaðamannafundi. Íslenska Barnahúsið hefur vakið mikla athygli erlendis, ekki síst á Norðurlöndunum. Í Linköping hefur verið starfrækt miðstöð í rannsóknum og meðferð kynferðisbrota á börnum. Það er að hluta til fyrir frumkvæði Silvíu drottningar að Barnahúsið er nú orðið að veruleika. Íslenska Barnahúsið sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Börn og forráðamenn þeirra geta með tilvísun barnaverndarnefnda fengið alla þjónustu í Barnahúsi sér að kostnaðarlausu. Greint er frá þessu í tilkynningu frá Barnaverndarstofu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×