Innlent

Utanbæjargjald leggst af

Sameining takmörkunarsvæða leigubíla á höfuðborgarsvæðinu, Grindavík og Reykjanesbæ tekur gildi á morgun, samkvæmt auglýsingu samgönguráðuneytisins. Við þetta leggst utanbæjargjald af innan svæðisins, en á daginn var það rúmar 219 krónur á kílómetra. Venjulegt daggjald er tæpar 95 krónur. "Breytingin felst í því að þessi svæði eru sameinuð í eitt takmörkunarsvæði," segir ráðuneytið, en leigubílstjórum er því frá morgundeginum heimilt að taka farþega innan þess alls. "Þetta leggst alveg hrikalega illa í okkur," segir Magnús Jóhannsson, framkvæmdastjóri Ökuleiða í Keflavík. Hann segir bílstjóra sem unnið hafi frá Leifsstöð verða af töluverðum tekjum. "Núna þurfa þeir fjóra túra til að ná sömu innkomu og þrír túrar skiluðu áður. Ég fæ ekki séð að þeir nái endum saman með þessu rugli." Þá segist hann óttast að þjónusta við íbúa á Suðurnesjum skerðist, því vera kunni að bílstjórar haldi til Reykjavíkur í verkefnaleit. "Svo getur náttúrlega líka gerst að íbúi í Vogum eða Grindavík hringi í leigubílastöð í Reykjavík eftir bíl í innanbæjartúr upp á 500 krónur. Bílstjóri sem lendir í því fer aldrei þangað aftur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×