Innlent

Skandall á Bifröst

Rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst hefur áminnt sex nemendur skólans fyrir að halda úti heimasíðu þar sem dreift var óhróðri um aðra nemendur. Heimasíðunni hafði verið haldið úti um nokkurt skeið og bar heitið skandalar. Þar var að finna slúður um nemendur skólans. Upplýsingafulltrúi skólafélagsins á Bifröst var meðal þeirra sem hélt úti síðunni, og sagði hann af sér í kjölfarið á áminningunni. Síðunni hefur verið lokað eftir að skólayfirvöld á Bifröst beittu sér í málinu og auk þess var birt afsökunarbeiðni frá nemendunum, sem héldu heimasíðunni úti, á lokuðu heimasvæði skólans. Runólfur Ágústsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, vildi ekkert tjá sig um málið, þar sem hann gæti ekki tjáð sig um málefni einstakra nemenda. Áminning er eitt þeirra úrrræða sem skólayfirvöld hafa yfir að ráða þegar kemur að því að refsa nemendum fyrir ósæmilega hegðu gagnvart öðrum nemendum. Í fertugustu grein reglugerðar Viðskiptaháskólans á Bifrost segir: Rektor getur veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu ef hann hefur gerst sekur um brot á lögum eða reglum háskólans eða framkoma hans gagnvart starfsmönnum háskólans eða öðrum stúdentum er ósæmileg eða óhæfileg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×