Innlent

Skiptiaðstöðu vanti á karlasalerni

Á Íslandi er greinilega ekki gert ráð fyrir að karlmenn skipti á börnum á ferðalögum þar sem í ljós hefur komið að aðeins einn söluskáli við þjóðveg eitt býður upp á slíka aðstöðu á karlasnyrtingu, það er veitingaskálinn á Brú í Hrútafirði - og er búið að vera í mörg ár. Greinilega hallar á karlmenn ætli þeir að sinna ungbörnum á ferð sinni um landið. Einungis einn söluskáli býður upp á aðstöðu til þess að skipta á börnum á karlasnyrtingu. Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri og Jafnréttisráð kynna í dag samstarfsverkefni sem unnið hefur verið að í sumar og lýtur að umönnun ungbarna við þjóðveg númer eitt. Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, starfsmaður Jafnréttistofu og umsjónarmaður verkefnisins, segir þó karla hafa tækifæri til þess utan karlasnyrtinga. Þeir hafi aðgang að slíkri aðstöðu á snyrtingu fatlaðra og einnig á ómerktum snyrtingum, en þrír skálar hafi verið með slíkar snyrtingar og þá hafi einn skáli boðið upp á opið svæði til bleiuskiptinga fyrir framan snyrtingar. Ragnheiður segir einnig athyglisvert að 21 af 44 skálum bjóði ekki upp á neina aðstöðu. Aðspurð hvort það sé í valdi Jafnréttisstofu til að koma með tillögur að úrbótum neitar Ragnheiður því og segir þjónustuna ekki lögbundna heldur val hvers eiganda. Ragnheiður sagði einnig koma til greina að endurtaka verkefnið eftir einhvern tíma og og kanna hugsanlegar breytingar. Verkefnið verður kynnt á blaðamannafundi í dag að Borgum við Norðurslóð klukkan fjögur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×