Innlent

Reynt áfram að ná samkomulagi

Ekki náðist samkomulag fjölda strandríkja við Atlantshaf um skiptingu á kolmunnakvótanum á fundi sem lauk í Reykjavík í gær. Reynt verður áfram til þrautar að ná samkomulagi. Samningamenn Rússa, Íslendinga, Færeyinga, Norðmanna og Evrópusambandslandanna náðu ekki lendingu á fundinum þótt þeir séu sammála um að samkomulag geti verið í sjónmáli eftir sjö ára misheppnaðar samningaviðræður um málið. Kolmunninn er með þeim ósköpum gerður að hann flakkar um fiskveiðilögsögur margra ríkja sem öll gera tilkall til að nýta hann og gera það. Enn krefjast þjóðirnar samanlagt yfir hundrað prósenta af því magni sem vísindamenn telja ráðlegt að veiða úr stofninum árlega. Viðræðurnar eru þó ekki sigldar í strand því embættismenn munu halda viðræðum áfram og nýr fundur hefur verið boðaður í Kaupmannahöfn í næsta mánuði. Á lokastigum fundarins núna var farið að tala um að Íslendingar fengju 18 prósenta hlut í kvótanum, sem að ýmsra áliti gæti talist viðunandi niðurstaða, hver sem hún svo verður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×