Erlent

Vísa tíu meintum öfgamönnum burt

Útlendingar í Bretlandi sem hvetja til hryðjuverka og dásama hryðjuverkamenn verða sendir til síns heima. Bresk yfirvöld starfa nú eftir þessari reglu en mannréttindasamtökum lýst ekki vel á hana. Breskir ráðamenn fóru ekki dult með þá fyrirætlan sína að vísa öfgamönnum sem hvettu til hryðjuverka úr landi. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði á dögunum að hver sá sem kæmi til Bretlands og hvetti til sjálfsmorðsárása og lofaði sjálfsmorðsárásármenn ætti ekki að fá að koma inn í landið og þeim sem fyrir væru ætti að vísa úr landi. Í dag var þessum orðum fylgt eftir. Tíu meintir öfgamenn, útlendingar sem flestir komu sem flóttamenn til Bretlands, voru handteknir og verður á næstunni vísað til heimalanda sinna. Mánuðum saman hefur verið unnið að samkomulagi við þau ríki um að þau beiti mennina ekki harðræði þegar þeir verða sendir burt frá Bretlandi. Hazel Blears hjá breska innanríkisráðuneytinu segir að samningar hafi náðst við Jórdaníu í vikunni og þá standi yfir viðræður við önnur lönd til að tryggja það að Bretar geti enn staðið við alþjóðlegar skyldur sínar en jafnframt vísað öfgamönnum sem ógna öryggi Bretlands úr landi. Ekki er vitað nákvæmlega hverjir voru handteknir en talið er að jórdanski klerkurinn Abu Qatada, sem starfað hefur á Bretlandi og hefur verið undir lögreglueftirliti, sé þeirra á meðal. Spænskur rannsóknardómari heldur því fram að hann hafi verið andlegur leiðtogi hryðjuverkamannanna sem gerðu árásirnar 11. september 2001 og breski yfirvöld segja hann hættulegan. Talsmenn mannréttindasamtaka hafa áhyggjur af þessari þróun og segja samkomulagið við heimalöndin einskis virði. Harðlínuklerkurinn Omar Bakri var svo handtekinn í Líbanon í dag að beiðni breskra yfirvalda. Hann yfirgaf Bretland skömmu eftir hryðjuverkin í Lundúnum og er sakaður um landráð. Bakri segist ekkert hafa gert til að ýta undir hryðjuverk en innra með sér elski hann íslam og hati allt sem ekki tengist trúnni. Þetta sé hluti af trú hans „Enginn getur sagt við mig: Omar, ekki ráðast á djöfulinn því sumir dýrka hann,“ segir Bakri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×