Erlent

Virðist hafa sigrast á HIV-veirunni

Karlmaður á þrítugsaldri virðist hafa sigrast HIV-veirunni. Ári eftir að maðurinn greindist með veiruna finnst hún ekki í blóðinu í honum.

Andrew Stimpson er 25 ára. Fyrir rúmu ári greindist hann HIV-jákvæður. Engin lækning eða lyf eru til sem duga á HIV-veiruna fyrir utan lyf sem halda henni niðri. En Andrew virðist hafa læknað sig sjálfur, í það minnsta greindist veiran ekki lengur í blóðinu í honum þegar hann fór aftur í próf nýlega.

Stimpson segist hafa verið langt niðri þar sem hann hafi ekki búist við þessu. Það séu 34,9 milljónir manna með HIV-smit í heiminum og hann sé eini maðurinn sem hafi getað losnað við það. Honum finnist þetta ótrúlegt og sennilega sé hann heppnasti maður í heimi.

Dr. Patrick Dixon alnæmissérfræðingur segir að ef þetta sé satt sé sagan mjög óvenjuleg því hún gefi í skyn að maður hafi smitast af HIV-veirunni og náð að lækna sig með sínum eigin hermannafrumum. Það séu hvítu blóðkornin, reyndar þau sömu og smitist af veirunni. Ef menn komist að því hvernig þetta hafi verið gert og geti svo endurtekið það, t.d með því að framleiða mótefni fyrir aðra, þá geti menn skapað nýja leið að lækningu sem erfitt sé að henda reiður á.

Sjúkrahúsið, þar sem Andrew gekkst undir rannsókn, hefur þegar gengið úr skugga um að ekki hafi orðið neinn misskilningur eða blóðsýnum ruglað. Nú er þess beðið að sýni úr honum verði rannsakað aftur til að sannreyna að hann hafi í raun og veru losnað við HIV-veiruna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×