Innlent

Verkfalli á Akranesi ekki frestað

MYND/Stöð 2
Fyrirhuguðu verkfalli Starfsmannafélags Akraness sem hefjast á á miðnætti á sunnudag verður ekki frestað. Þetta varð niðurstaða fundar trúnaðarmanna nú eftir hádegið, en bæjarráð Akraness hafði í gær skorað á starfsmannafélagið að fresta verkfallinu um viku. Í yfirlýsingu sem starfsmannafélag Akraness sendi frá sér fyrir stundu kemur fram að ákvörðun félagsins um að nýta sér verkfallsréttinn sé síðasta úrræði félagsins í kjarabaráttuni. Undanfarin misseri hafi kjör félagsmanna félagsins versnað á meðan kjör annarra einstaklinga í sömu stéttum á sama atvinnusvæði, sem teygir sig til höfuðborgarsvæðisins, hafi batnað verulega. Þetta geti félagsmenn Starfsmannafélags Akraness ekki sætt sig við. Verkfallið mun hafa víðtæk áhrif á þjónustu ýmissa stofnana á Akranesi, þar á meðal skóla, leikskóla, íþróttahús, dvalarheimili og heimilishjálp. Nýgerður kjarasamningur starfsmannafélagsins við launanefnd sveitarfélaga var kolfelldur í fyrradag, með 75 prósentum greiddra atkvæða. Starfsmannafélagið segist mjög viljugt til samninga og þykir forsvarsmönnum félagsins einsýnt að það mun takast að semja áður en verkfallið skellur á, sé vilji fyrir hendi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×