Lífið

Skelfisktínsla getur endað með skelfingu

Mörgum finnst gaman að tína krækling í fjörum landsins sér til matar en slík iðja getur verið stórhættuleg. Rannsóknir sýna að eitraðir þörungar setjast í skeljarnar og valda fólki verulegum óþægindum, jafnvel dauða. Líkur á eitrun eru mestar á sumrin en það er einmitt sá tími sem vinsælastur er til tínslu. Skelfisktínsla er vinsælt tómstundagaman hjá fjölmörgu fólki. Höfuðborgarbúar þyrpast gjarnan upp í Hvalfjörð með stígvélin á fótunum, gramsa í þaranum eftir kræklingi, skella honum á grillið og skola matnum að lokum niður með köldu hvítvínsglasi í sumarsólinni. Líffræðingarnir Karl Gunnarsson og Agnes Eydal sýna hins vegar fram á í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins, sem er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags, að slík neysla getur dregið dilk á eftir sér. Þau mældu svifþörungagróður í Hvalfirði í heilt ár og könnuðu áhrif hans á skelfisk. Niðurstöður þeirra sýna að á sumrin fjölgar þörungum sem myndað geta eiturefni. Agnes segir að viðmiðunarmörk um eitrun geri ráð fyrir að ekki megi vera fleiri en þúsund frumur af skoruþörungi í hverjum lítra sjávar til að eituráhrif komi fram hjá fólki. Yfir hásumarið var hins vegar að finna allt að tólffalt það magn í sýnum þeirra, tólf þúsund frumur í hverjum lítra sjávar. Skoruþörungurinn myndar eiturefni sem kallast DSP og koma áhrif þess einkum fram í meltingarvegi þar sem efnið veldur uppköstum og niðurgangi, án þess þó að vera verulega hættulegt. "Hins vegar hefur mælst annars konar eitur, myndað af öðrum skoruþörungi, yfir leyfilegum viðmiðunarmörkum bæði í kræklingi og hörpudisk. Það getur verið banvænt í miklu magni." Þessi eiturtegund hefur ekki fundist í Hvalfirði heldur í Breiðafirði og við Vestmannaeyjar. Engar skrár virðast vera til um eitranir af völdum þörunga en Agnes segist ekki vita til þess að nokkur hafi látist af þessum ástæðum hérlendis. Skamman tíma tekur fyrir skelina að safna upp eitri en langan tíma að hreinsa það út. Því eru líkurnar á eitrunum mestar yfir sumarmánuðina þegar þörungablóminn er hvað mestur og fram á haustið. "Það er óhætt að tína þetta frá því seint í nóvember fram á vor," segir Agnes en gömul regla segir að sneiða eigi hjá skelfisktínslu í þeim mánuðum sem hafa ekki stafinn r í nafni sínu: maí, júní, júlí og ágúst. Varúðartímabilið er þó lengra. Vandamálið er hins vegar það að flestir vilja finna sér skel í góða veðrinu en þá eru einmitt mestar líkur á að hún sé eitruð. Einu gildir hvernig kræklingurinn er meðhöndlaður. "Þú getur soðið skelina í sólarhring og samt losnarðu ekki við eitrið," bætir Agnes við. Þótt mælingar tvímenninganna hafi farið fram í Hvalfirði þá eru þörungarnir ekki staðbundnir að sögn Agnesar þótt meiri líkur séu á eitruðum þörungum í í hlýja sjónum sunnanlands og vestan.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.