Sport

Úrslitaleikur Hauka og Keflavíkur í Digranesi

Úrslitaleikurinn í Powerade-bikarkeppni kvenna fer fram klukkan tvö í dag á óvenjulegum stað en leikurinn fer fram í Digranesi þar sem fáir stórleikir í körfubolta hafa farið fram. Það eru Keflavík og Haukar sem mætast en það kemur ekki á óvart þar sem þetta eru sterkustu lið landsins ásamt Grindavík.

Haukar mæta til leiks án þjálfarans síns Ágústs Björgvinssonar, sem er í leikbanni, en Keflavík verður án gömlu kempunnar Önnu Maríu Sveinsdóttur sem þurfti að leggjast undir hnífinn vegna hnémeiðsla og leikur því ekki meir á árinu.

"Ég má vera í stúkunni og mun reyna að láta lítið fyrir mér fara," sagði Ágúst Björgvinsson en hann mun treysta aðstoðar­þjálfara sínum, Ingva Gunnarssyni, fullkomlega fyrir verkefninu. "Það verður erfitt að sitja á sér en ég verð að vera stilltur að þessu sinni," sagði Ágúst, sem er nokkuð sáttur við íþróttahúsið þó hann hefði frekar viljað leika á parketti en dúki.

Liðin mættust í Keflavík í vikunni og þá gerðu Haukastúlkur sér lítið fyrir og sigruðu, 60-75. "Það er skarð fyrir skildi að Anna María geti ekki verið með. Annars eru allar hinar stelpurnar í fínu standi," sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur. "Við eigum harma að hefna síðan þær komu hingað og sigruðu okkur. Þá spiluðum við illa en við lofum að gera betur núna og vonandi verður þetta skemmtilegur leikur fyrir áhorfendur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×