Innlent

Kárahnjúkamótmæli kostuðu 20 milljónir

Mótmælin við Kárahnjúka. Gert er ráð fyrir 38 milljónum króna í fjáraukalögum til Ríkislögreglustjóraembættins. Rúmur helmingur er vegna aukinnar löggæslu Ríkislögreglustjóra við Kárahnjúka í sumar.
Mótmælin við Kárahnjúka. Gert er ráð fyrir 38 milljónum króna í fjáraukalögum til Ríkislögreglustjóraembættins. Rúmur helmingur er vegna aukinnar löggæslu Ríkislögreglustjóra við Kárahnjúka í sumar.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita 38 milljónum króna á fjáraukalögum til ríkislögreglustjóraembættisins. Rúmur helmingur fjárveitingarinnar, tuttugu milljónir króna, er vegna sólarhringsvaktar embættisins vegna mótmæla umhverfisverndarsinna á Kárahnjúkum í sumar.

Sólarhringsvaktin var viðhöfð við vinnusvæði álversframkvæmda á Austfjörðum til að afstýra skemmdarverkum, eins og það heitir í rökstuðningi með fjáraukalögunum, og koma í veg fyrir að vinna yrði stöðvuð með ólögmætum aðgerðum, að mati lögreglunnar.

Jón Bjartmarz, starfsmaður Ríkislögreglustjóraembættisins, segir að embættið hafi verið með menn á vakt frá miðjum júlí þar til mótmælendur fóru suður kringum 10. ágúst. Vaktinni hafi þá verið hætt. Ríkislögreglustjóraembættið fær fjárveitinguna og gerir síðan upp við þau embætti sem voru með menn á staðnum. Veittar eru fimmtán milljónir króna til að fjármagna starfsemi fjögurra sérsveitarmanna á Akureyri sem heyra undir embætti ríkislögreglustjóra og undir daglegri stjórn sýslumannsins þar eða í því umdæmi sem þeir eru hverju sinni. Það er liður í að efla löggæslu fyrir norðan og er til reynslu í eitt ár til að byrja með.

Þá er loks þriggja milljóna króna aukaframlag vegna kostnaðar við ferð fulltrúa kennslanefndar ríkislögreglustjóra til Taílands í kjölfar náttúruhamfaranna í Suðaustur-Asíu í janúar á þessu ári. Ferðin var farin að beiðni Norðmanna og í samráði við forsætisráðuneytið. Heildarkostnaður við hana nam rúmum þremur milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×