Innlent

Bandaríkin eru á bremsunni

Mótmæli grænfriðunga. Grænfriðungar stóðu fyrir mótmælum fyrir utan loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Montreal í Kanada og hvöttu til aðgerða til að stöðva bráðnun norðurskautsíshellunnar.
Mótmæli grænfriðunga. Grænfriðungar stóðu fyrir mótmælum fyrir utan loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Montreal í Kanada og hvöttu til aðgerða til að stöðva bráðnun norðurskautsíshellunnar.

Ríkin sem standa að Kyoto-bókun­inni um að­gerð­ir til að draga úr losun gróður­húsa­­loft­tegunda­ ætla að semja um frekari skuld­bindingar sem taka við árið 2013. Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna lauk seint í gærkvöldi í Montreal í Kanada. Þar voru teknar ákvarðanir um framhald Kyoto-bókunarinnar.

Árni Finnsson, formaður Nátt­úru­verndarsamtaka Íslands, sem sótti ráðstefnuna, sagði að eitt það markverðasta sem fram hefði komið á ráðstefnunni hefði verið samkomulagið sem var í burðarliðnum undir lok ráðstefnunnar í gær.

"Um þetta ríkir góð sátt, en ríkin hafa komið sér saman um samningsumboð fyrir næsta skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar sem hefst þá árið 2013," sagði hann og bættivið að í samkomulaginu væri kveðið á um að viðræðum yrði lokið nógu snemma til að ekki yrði bil á milli fyrsta og annars tímabils skuldbindingartímabils bókunarinnar. "Þetta er mikill árangur. Með samkomulaginu fá fyrirtæki heimsins skilaboð um að Kyoto-bókunin verði áfram í fullu gildi, lengur en til ársins 2012, og þar með líka þær grund­vallar­regl­ur að áfram verði dregið úr los­un gróður­húsaloft­tegunda og að hægt verði að láta kvóta ganga kaup­um og sölum."

Þá sagði Árni mikilsvert sam­komulag sem náðist um aðkomu þróunarríkja að Kyoto-bókuninni. "Að þau geti komi að henni án þess að undirgangast skuldbindingarnar að fullu, en taki engu að síður á sig skuldbindingar varðandi sjálf­bæra þróun og nýtingu endur­nýjan­leg­rar orku."

Árni sagði einnig liggja fyrir ráðstefnunni ályktun um rammasamninginn sem Kyoto-bókunin er gerð við. "Þar hafa Bandaríkjamenn að­­komu því þótt þeir séu ekki aðlil­­ar að Kyoto-bókuninni eru þeir aðilar að ramma­samningnum," sagði hann og upplýsti að fulltrúar Bandaríkjanna hefðu gengið út af fundi um það mál í fyrrinótt.

"Þeim líkar ekki að tala um framtíðina," sagði hann en taldi þó ólíklegt að reynt yrði að leggja stein í götu bókunarinnar. "Ljóst er að stjórn Bush hef­ur misreiknað sig og Banda­ríkja­menn eru hér algjörlega ein­angr­aðir." Sigríður Anna Þórðardóttir um­hverfis­ráðherra sagði í ræðu sinni að Kyoto-bókunin væri sögu­legt skref en að grípa þyrfti til frek­ari aðgerða. Hún lagði áherslu á að til að takast á við út­blást­ur gróður­húsa­lofttegunda þyrfti hnatt­rænt átak til langs tíma. Þróuðu ríkin ættu áfram að leiða verkefnið en virk þátt­taka þróunarríkjanna, byggð á samvinnu og sjálfbærri þróun, væri einnig nauðsynleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×