Innlent

Útúrsnúningur og misskilningur

Stefán Ólafsson prófessor.
"Útúrsnúningar, langlokur og vafasöm framsetning," segir Stefán um gagnrýni stjórnvalda á skýrslu sína.
Stefán Ólafsson prófessor. "Útúrsnúningar, langlokur og vafasöm framsetning," segir Stefán um gagnrýni stjórnvalda á skýrslu sína.

"Ég tel að tilraun ráðuneytanna til að véfengja niðurstöður rannsóknarinnar sé skiljanleg því niðurstöðurnar eru stjórnvöldum óþægilegar," segir Stefán Ólafsson prófessor um þá gagnrýni sem ráðuneyti fjármála og heilbrigðismála sendu frá sér í sameiningu í fyrradag.

Þau beindast gegn nýlegri skýrslu Stefáns um málefni öryrkja, en niðurstöður skýrslunnar eru ekki í samræmi við niðurstöðu skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem út kom fyrr á árinu. Í yfirlýsingu frá Stefáni frá því í gær segir að stærstur hluti athugasemda ráðuneytanna séu útúrsnúningar, langlokur um aukaatriði og tilraunir til að fegra útkomuna með vafasamri framsetningu gagna. Í gagnrýni ráðuneytanna sagði á hinn bóginn að stutt skoðun á samantekt Stefáns um efnið hafi leitt í ljós að hann hafi misskilið efnið í veigamiklum atriðum og notast við ónákvæman og villandi samanburð.

Í skýrslunni ber Stefán til að mynda saman stöðu öryrkja á Íslandi við stöðu þeirra á hinum Norðurlöndunum. Í skýrslu sinni sem birt var í síðustu viku sagði prófessorinn að kjör öryrkja í landinu hefðu dregist aftur úr kjörum annara þegna, það er að segja að kaupmáttur þeirra hefði ekki aukist jafn ört og vinnandi fólks. Þessu eru yfirvöld ósammála og hafa brugðist við með harðorðri gagnrýni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×