Erlent

Ekkert lát á óeirðunum

Eldarnir slökktir. Kveikt var í teppageymslu í Aulnay-sous-Bois í fyrrinótt og unnu yfir hundrað slökkviliðsmenn hörðum höndum fram á morgun að því að slökkva eldinn.
Eldarnir slökktir. Kveikt var í teppageymslu í Aulnay-sous-Bois í fyrrinótt og unnu yfir hundrað slökkviliðsmenn hörðum höndum fram á morgun að því að slökkva eldinn.

Óeirðirnar sem geisað hafa í úthverfum Parísar í rúma viku eru farnar að breiðast út um Frakkland. Í fyrrinótt voru ríflega fimm hundruð ökutæki eyðilögð og kveikt var í nokkrum byggingum. Ekkert lát er á ólgunni í Frakkland sem hófst í síðustu viku þegar tveir unglingspiltar biðu bana í spennistöð í Clichy-sous-Bois en íbúar hverfisins segja lögreglumenn hafa elt þá.

Aðfaranótt föstudagsins var sú versta í óeirðahrinunni hingað til. Unglingahópar, vopnaðir kylfum og grjóti, fóru um úthverfi sem einkum eru byggð innflytjendum og eyðilögðu flest sem á vegi þeirra varð. Lögregla segir að 519 bifreiðar hafi verið brenndar til kaldra kola á Parísarsvæðinu og í Yvelines, vestur af höfuðborginni voru 78 strætisvagnar eyðilagðir.

Fatlaður maður brenndist alvarlega þegar bensínsprengju var hent inn í strætisvagn sem hann var í í Sevran-hverfi. Í dögun hafði lögreglu að mestu tekist að koma á friði og spekt en áttatíu manns voru handteknir eftir átökin. Í Dijon, austar í landinu, var einnig kveikt í bílum. Til átaka kom í Rúðuborg og nágrenni hennar. svo og í Rónarhéruðunum, nærri Marseilles.

Dominic de Villepin forsætisráðherra og Nicolas Sarkozy innanríkisráðherra hafa fundað um ástandið ásamt þing- og bæjarstjórnarmönnum hverfanna sem í hlut eiga. Framganga Sarkozy hefur raunar vakið nokkra athygli en hann sagði að ríkisstjórnin myndi ekki líða "vandræðageplum og óþjóðalýð að vaða uppi".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×