Erlent

Rannsaka ásakanir um leynifangelsi

Fangi í Guantanamo. Fulltrúa Rauða krossins hefur grunað að bandarísk yfirvöld feldu vissa fanga fyrir eftirliti.
Fangi í Guantanamo. Fulltrúa Rauða krossins hefur grunað að bandarísk yfirvöld feldu vissa fanga fyrir eftirliti. MYND/AP

Talsmenn Evrópusambandsins, Evrópuráðsins, Alþjóða Rauða krossins og óháðra mannréttindasamtaka boðuðu í gær allir rannsókn á því hvað hæft væri í fregnum um að bandaríska leyniþjónustan CIA ræki leynileg fangelsi í Austur-Evrópulöndum, þar sem hún héldi meintum hryðjuverkamönnum föngnum og stundaði yfirheyrslur yfir þeim.

Talsmenn Rauða krossins sögðust hafa sent Bandaríkjastjórn fyrirspurn um málið og farið fram á aðgang að fangelsunum ef tilvist þeirra skyldi verða staðfest. Fulltrúar Alþjóða Rauða krossins hafa verið þeir einu sem fengið hafa að heimsækja meinta al-Kaída-liða sem haldið er föngnum í herbúðum Bandaríkjahers í Guantanamo á Kúbu og víðar, en þeir hafa ítrekað lýst áhyggjum af óstaðfestum fréttum af því að bandarísk yfirvöld feldu vissa fanga þar sem eftirlitsmenn Rauða krossins næðu ekki til. Forsvarsmenn Evrópuráðsins, sem er sú stofnun sem hefur það hlutverk að hafa eftirlit með mannréttindamálum í álfunni, boðuðu einnig rannsókn. Talsmenn mannréttindasamtaka tóku í sama streng.

Friso Roscam Abbing, talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði upplýsinga verða leitað hjá öllum ríkisstjórnum ESB-ríkjanna 25.

Fulltrúar Bandaríkjastjórnar hafa neitað að tjá sig um málið eftir að dagblaðið The Washington Post birti grein þar sem fullyrt er að CIA hafi í fjögur ár - í nafni "stríðsins gegn hryðjuverkum" - haldið úti kerfi leynilegra fangelsa erlendis, þar á meðal í nokkrum Austur-Evrópulöndum. Blaðið hefur núverandi og fyrrverandi leyniþjónustumenn og erindreka bæði frá Bandaríkjunum og öðrum löndum fyrir fréttinni. Ráðamenn í tíu löndum vísuðu því á bug í gær að slík leynifangelsi væru hýst í þeirra lögsögu. Rúmenía, Pólland, Lettland, Ungverjaland og fyrrverandi Sovétlýðveldin Georgía og Armenía voru þar á meðal.


Tengdar fréttir

Gruna Pólland og Rúmeníu

Talsmenn Mannréttindavaktarinnar (Human Rights Watch), sögðu í New York í gær að samtökin hefðu heimildir fyrir því að CIA hafi flutt meinta hryðjuverkamenn sem teknir voru höndum í Afganistan til Póllands og Rúmeníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×