Erlent

Gruna Pólland og Rúmeníu

Flugturninn á Szymany-flugvelli í Norðaustur-Póllandi þar sem heimildir eru fyrir því að Boeing 737-þota á vegum CIA hafi lent á árinu 2003 með fanga frá Afganistan.
Flugturninn á Szymany-flugvelli í Norðaustur-Póllandi þar sem heimildir eru fyrir því að Boeing 737-þota á vegum CIA hafi lent á árinu 2003 með fanga frá Afganistan.

Talsmenn Mannréttindavaktarinnar (Human Rights Watch), sögðu í New York í gær að samtökin hefðu heimildir fyrir því að CIA hafi flutt meinta hryðjuverkamenn sem teknir voru höndum í Afganistan til Póllands og Rúmeníu.

Mark Garlasco, hermálasérfræðingur hjá samtökunum, sagði þessa ályktun dregna af greiningu á flugdagbókum úr flugvélum sem CIA notaði til slíkra fangaflutninga á tímabilinu 2001 til 2004, en samtökin hefðu fengið þessar dagbækur í hendur. "Vísbendingar eru um að farið hafi verið með fangana frá Afganistan til staða í Evrópu og víðar," tjáði Garlasco AP-fréttastofunni. Hann sagði tvo staði liggja sérstaklega undir grun, en það væru Szymany-flugvöllur í Norðaustur-Póllandi, en í grennd við hann væru höfuðstöðvar pólsku leyniþjónustunnar.

Hinn staðurinn væri Mihail Kogalniceanu-herflugvöllurinn í Rúmeníu. Forsætisráðherra Rúmeníu, Calin Popesku, vísaði því alfarið á bug í gær að CIA hefði nokkra aðstöðu í landinu. Aðstoðarmaður pólska forsetans Aleksander Kwasniewski sagði að pólsk stjórnvöld hefðu "engar upplýsingar" um slíka starfsemi í Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×