Erlent

Íraskur ráðherra myrtur

Bassam Salih Kubba, varautanríkisráðherra hinnar nýju Íraksstjórnar, var skotinn til bana á leið sinni til vinnu í gær. Talið er að stuðningsmenn Saddams Hussein hafi myrt hann. Kubba er annar háttsettur embættismaður í Írak sem er ráðinn af dögum á síðastliðnum mánuði, en 17. maí var Izzadine Saleem, yfirmaður framkvæmdaráðs Íraks, myrtur í sjálfsmorðsárás. Íraskur borgari lést einnig í gær og fjórir slösuðust í skothríð milli bandarískra hersveita og andspyrnumanna. Verðandi ríkisstjórn hefur þó borist stuðningur úr óvæntri átt; hinn róttæki Sjíta-klerkur, Muqtada al-Sadr, hefur lýst því yfir að hann sé reiðubúinn til að setjast að samningaborðum með stjórninni, verði það til þess að Bandaríkjamenn hverfi af landi brott. Bandarísk yfirvöld segjast fagna sáttaumleitan al-Sadr en taka henni með fyrirvara. Þau hafa ennfremur varað við skærum þegar nýja ríkisstjórnin tekur við völdum þann 30. júní næstkomandi. Þá lýkur hernáminu undir forystu Bandaríkjanna formlega séð, en bandarískar hersveitir eru þó síður en svo á förum. Samkvæmt ályktun sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti síðastliðinn þriðjudag, hefur hernámsliðið frest til ársins 2006 til að yfirgefa landið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×