Erlent

Viðurkenna þjóðarmorð

Bosníu-Serbar hafa í fyrsta skipti viðurkennt að hafa drepið um 8 þúsund múslima í Srebrenitsa í Bosníu sumarið 1995. Það ár var Bosníustríðið enn í hámarki og alþjóðasamfélagið stóð ráðþrota gagnvart glæpum gegn mannkyni. Srebrenitsa er hluti af yfirlýstu öryggissvæði Sameinuðu þjóðanna í Bosníu, en undir stjórn Bosníu-Serba. Nú hefur opinber rannsóknarnefnd komist að því sem vitni hafa allar götur haldið fram: að hermenn og lögreglusveitir Bosníu-Serba hafi með skipulögðum hætti staðið fyrir mesta fjöldamorði í Evrópu eftir síðari heimsstyrjöld. Nær tíu þúsund íslamskir karlmenn og drengir voru fyrst hnepptir í fangabúðir, en svo hurfu þeir flestir sporlaust. Fljótlega komu á kreik sögusagnir um að þeir hefðu verið drepnir og skömmu síðar fundust fjöldagrafir, sem staðfestu að þeir hefðu verið teknir af lífi. Stríðsglæpadómstóll Sameinuðu þjóðanna hefur lýst atburðinn skipulagt þjóðarmorð, en nú hafa Bosníu-Serbar í fyrsta skipti gengist við verknaðinum. Helstu yfirmenn Bosníu-Serba á þessum tíma, svo sem Radovan Karadits og Radko Mladits, ganga enn lausir, enda þótt þeir séu eftirlýstir af stríðsglæpadómstólnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×