Innlent

Ekki árás Valhallar

Oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn segir ekkert hæft í ásökunum Gunnars I. Birgissonar, flokksfélaga síns í Kópavogi, um að höfnun borgarráðs á vatnslögn Kópavogsbæjar um land Reykjavíkurborgar sé árás Valhallar á sjálfstæðismenn í Kópavogi. Hann segir afstöðu sjálfstæðismanna í borgarráði byggjast á faglegri umsögn borgarlögmanns. Borgarráð hefur hafnað beiðni bæjaryfirvalda í Kópavogi um framkvæmdaleyfi fyrir stofnlögn vatnsveitu en ætlunin var að bora eftir vatni í Vatnsendakrikum og leggja vatnsleiðslu fyrir kalt vatn inn í Kópavog um Heiðmörk. Það vatn sem streymir nú úr krönum á heimili í Kópavogi er keypt af Reykjavíkurborg. Í umsögn borgarlögmanns segir að borsvæðið umdeilda sé á þeim hekturum sem borgin tók eignarnámi árið 1949 en bæjaryfirvöld í Kópavogi segja það í sinni lögsögu. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, greiddi atkvæði gegn vatnslögninni í borgarráði. Í Fréttablaðinu í dag lýsir Gunnar I. Birgisson, verðandi bæjarstjóri í Kópavogi, þeim gjörningi sem árás Valhallar á Sjálfsæðismenn í Kópavogi og segir að verið sé að stuðla að sundrungu Sjálfstæðisflokksins. Vilhjálmur segir ekkert hæft í þeim ásökunum. Í fyrsta lagi hafi hann aldrei verið aðstoðarframkvæmdastjóri flokksins, eins og segir í Fréttablaðinu, og í öðru lagi komi þetta mál Valhöll ekkert við. Hér sé um ágreiningsefni milli tveggja sveitarfélaga að ræða og að afstaða sín og og borgarráðs byggist eingöngu á faglegri umsögn borgarlögmanns en ekki einhverri geðþóttaákvörðun.  Í ályktun frá bæjarráði Kópavogs segir að ráðið harmi að samskipti sveitarfélaganna sé komið í þennan farveg og bæjarstjóranum, Sigurði Geirdal, er falið að hitta borgarstjórann, Þórólf Árnason, og ræða málið. Reykjavík fer yfir lögsögu Kópavogs vegna Hellisheiðarvirkjunar og aðspurður hvort ekki væri eðlilegt að borgin sýndi Kópavogi viðlíka greiðasemi segir Vilhjálmur þetta ekki snúast um greiðasemi heldur lögfræðilegt deilumál um eignarhald á landi. Hann segir það málinu ekki viðkomið að Kópavogur kaupi vatn af Reykjavíkurborg. Borgin hefur áður lent í viðlíka deilum við einstök sveitarfélög en þá hafa ekki heyrst upphrópanir eins og núna að sögn Vilhjálms.    Á myndinni eru þrír af borgarfulltrúm Sjálfstæðisflokksins, f.v. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Björn Bjarnason og Kjartan Magnússon.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×