Innlent

Þjóðarblómið valið í október

Landsmönnum gefst kostur á því í næsta mánuði að velja þjóðarblómið í almennri skoðanakönnun. Líklegt er hins vegar að Alþingi muni eiga síðasta orðið. Leitin að þjóðarblóminu hefur staðið yfir í sumar. Krakkarnir í sjötta bekk Þ í Snælandsskóla í Kópavogi hafa með Þóru Ragnarsdóttur, kennara sínum, verið að kynna sér þær jurtir sem til greina koma. Bekkurinn fór reyndar í sérstaka jurtaferð á dögunum að Alviðru undir Ingólfsfjalli, þar sem Landvernd er með fræðslusetur, og árangurinn má nú sjá á veggjum skólans. Í dag kom menntamálaráðherra í heimsókn til að skiptast á skoðunum við krakkana um þjóðarblómið um leið og fultrúi Landsverndar, Rannveig Thoroddsen líffræðingur, fjallaði nánar um valmöguleikana. Ráðherrann er búinn að mynda sér skoðun en hún telur fyrir sína parta að Holtasóley eigi að vera þjóðarblóm Íslendinga. Öll þjóðin mun hins vegar fá tækifæri til þess að segja álit sitt því í næsta mánuði er áformað að fram fari almenn skoðanakönnun um blómið, bæði á netinu og með því að seðlum verði dreift með dagblöðum. Þar verður kosið um þær tíu jurtir sem flestar tilnefningar hafa fengið í sumar og úrslit birt síðasta sumardag, 22. október. Líkur eru á að niðurstaðan verði með einhverjum hætti staðfest af Alþingi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×