Erlent

Tugir barna létu lífið

Fleiri börn féllu í sprengjuárás í Bagdad í gær en höfðu áður látist í einni og sömu árásinni frá því að innrásin í Írak hófst fyrir tæpu hálfu öðru ári síðan. Nær fimmtíu manns létu lífið í margvíslegum árásum í Bagdad. Flestir þeirra sem létust voru börn, 35 af þeim 46 sem létust. Að auki særðust rúmlega 200 manns, að sögn sjúkrahússtarfsfólks og hermálayfirvalda. Langsamlega mannskæðasta árin átti sér stað í vesturhluta borgarinnar. Þar var fjöldi fólks samankominn til að fagna því að nýtt skólpleiðslukerfi var tekið í notkun. Í það minnsta 42 létust í árásinni, sjö fullorðnir og 35 börn. Þar særðust einnig rúmlega 140 manns, flestir íraskir borgarar en einnig tíu bandarískir hermenn. "Bandaríkjamennirnir kölluðu okkur til sín og spurðu okkur hvort við vildum sælgæti. Við fórum til þeirra og þá sprakk bíll," sagði hinn tólf ára gamli Abdel Rahman Dawoud þar sem hann lá særður á sjúkrahúsi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×